Aðalfundur Alliance française í Reykjavík var haldinn í húsakynnum félagsins að Tryggvagötu 8 þann 8. maí síðastliðinn og var hann sá 107. í röðinni. Guðlaug M. Jakobsdóttir forstöðumaður alþjóðaskrifstofu Háskólans í Reykjavík var kosin forseti. Hún tekur við af Einar Hermannssyni sem hefur verið forseti félagsins síðan 2014, en hann gaf ekki kost á sér áfram. Aðrir stjórnarmenn eru Philippe Blanc steinsmiður og gjaldkeri félagsins, Jóhanna Björk Guðjónsdóttir frönskukennari, Sigríður Snævarr sendiherra, Sophie Froment framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá CCP og Bertrand Lauth barna- og unglingageðlæknir. Tryggvi Davíðsson hagfræðingur var kosinn nýr í stjórn og er hann boðinn hjartanlega velkominn í stjórnina.
Alliance Française í Reykjavík var stofnað árið 1911. Félagið er sjálfseignastofnun og lýtur íslenskum lögum. Helsta starfsemi félagsins er frönskukennsla fyrir alla aldurshópa, en þar fer einnig fram fjölbreytt starfsemi sem snýst um það að halda í heiðri fjölbreyttri menningu hins frönskumælandi heims og er sú starfsemi sannarlega ekki eingöngu bundin við Frakkland. Alliance Française er í góðu samstarfi við hinar ýmsu menningarstofnanir á Íslandi og tekur þátt í árlegum viðburðum í Reykjavík.