Alliance française í Reykjavík óskar heiðursfélaga sínum, frú Vigdísi Finnbogadóttur, hjartanlega til hamingju með 90 ára afmælið.
Vigdís hefur verið félagi í Alliance française frá árinu 1955. Hún var forseti félagsins á árunum 1975 – 76 og skapaði hún m.a. þá hefð að sýna stutta leikþætti í bókasafni félagsins í samvinnu við frönskunema í Háskóla Íslands. Leikþættirnir voru úr verkum eftir þekkt frönsk skáld eins og Marivaux, Musset og Beaumarchais.
Fyrir okkur sem stöndum að starfsemi Alliance française þá er Vigdís einstök manneskja og fyrirmynd. Hún hefur með ást og hlýju náð að tengja tungumál og menningarheima og ekki síst hefur hún lagt rækt við franska tungu og menningu. Við erum sannfærð um að stóran hluta af velgengni Alliance française á Íslandi megi þakka henni og hennar einstaka lífsstarfi.
Til hamingju með afmælið kæra Vigdís!