Franska sendiráðið á Íslandi og Alliance Française í Reykjavík efndu til Sólveigar Anspach verðlaunanna með stuðningi Reykjavíkurborgar, Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og kvikmyndaframleiðandans Zik Zak. Tilgangurinn var að heiðra minningu Sólveigar Anspach og hvetja ungar konur til dáða í kvikmyndaleikstjórn. Verðlaunin eru veitt konum fyrir fyrstu stuttmynd þeirra á frönsku eða íslensku, tungumálunum hennar Sólveigar.
Þetta er þriðja verðlaunahátíðin og dómnefndin, þar sem Sjón situr í forsæti, heiðrar þrjár afskaplega vel gerðar stuttmyndir. Hver og ein með sín einkenni, ljóðræna sýn, vísindaskáldskap, fjölskyldusögu. Myndirnar kanna dýpsta samband okkar við þá sem okkur standa næst og minna á hve ímyndunin og dagdraumarnir skipta miklu í lífinu.
Eftir sýningu á stuttmyndunum þremur stígur sigurvegarinn á svið og tekur við Sólveigar Anspach verðlaununum 2019.
Kvöldinu lýkur með sýningu á Tunglferðinni eftir Georges Méliès, mynd frá 1902, og verður boðið upp á drykki að því loknu.
Kvöldið er ókeypis.
Tunglferðin
Drama/Vísindaskáldskapur
Lengd: 14 mín
Leikstjórn: Georges Méliès
Byggt á Ferðinni til tunglsins eftir Jules Verne (1865) og Fyrstu menn á tunglinu eftir H.G. Wells (1901).
Barbenfouillis prófessor skipuleggur ferð til tunglsins ásamt sex öðrum vísindamönnum.
Georges Méliès var sjónhverfingamaður og leikstjóri. Hann leikstýrði yfir 600 kvikmyndum og fann upp fjöldann allan af aðferðum og brellum við kvikmyndagerðina. Tunglferðin var upphafið að vísindaskáldskap í kvikmyndum og telst með merkustu myndum í kvikmyndasögunni.
Lobster Films, Gan sjóðurinn á vegum Groupama og Technicolor sjóðurinn fyrir kvikmyndaminjar gengust fyrir því að hreinsa og gera myndina upp.
Institut Français býður upp á þessa sýningu.