Aðalfundur stjórnar Alliance Française í Reykjavik var haldinn miðvikudaginn 2. júní í húsakynnum félagsins í Tryggvagötu 8 að viðstöddum sendiherra Frakklands á Íslandi Graham Paul og tveimur starfsmönnum sendiráðsins Sophie Delporte og Renaud Durville.
Framkvæmdastjóri Alliance Française í Reykjavík, Adeline D‘Hondt fór yfir ársskýrslu félagsins fyrir árið 2020. Starfsemi félagsins felst aðallega í kennslu í frönsku og heldur það úti fjölbreyttum frönskunámskeiðum fyrir alla aldurshópa. Menningarstarfsemi félagsins felst í skipulagningu viðburða oft í samstarfi við franska sendiráðið á Íslandi. Eins og hjá flestum öðrum var starfsemi félagsins lituð af heimsfaraldri og ýmsu varð að breyta og öðru frestað þar til síðar. Þrátt fyrir að faraldurinn hafi haft áhrif á starfsemi félagsins, gengu skráningar vel á frönskunámskeiðin sem fóru að hluta til fram á rafrænan hátt. Mikið reyndi á sveigjanleika og aðlögunarhæfni kennara og hljóta þér sérstakar þakkir fyrir mjög góða frammistöðu. Kennslan hélst óskert allt árið og því var afkoma félagsins jákvæð. Alliance francaise gaf út 20 DELF-DALF vottorð á árinu, en um er að ræða vottorð um frönskukunnáttu sem eru viðurkennd af franska menntamálaráðuneytinu.
Með styrk frá franska utanríkisráðuneytinu gat félagið uppfært tæknibúnað m.a. til þess að geta haldið úti rafrænni kennslu samhliða kennslu á staðnum, en það gefur möguleika á að gera fólki á landsbyggðinni kleift að taka þátt í námskeiðunum.
Stjórnin kom á framfæri þakklæti til Adeline D‘Hondt framkvæmdastjóra og Florent Gast fyrir einstaka vinnu í krefjandi aðstæðum sem fylgdu Covid-19. Jafnframt þakkaði stjórn Graham Paul sendiherra og hans teymi fyrir mjög gott samstarf við hin ýmsu tækifæri og viðburði.
Sigríður Snævarr bauð sig ekki fram til stjórnarsetu eftir 13 ár í stjórn félagsins og var Séverie Pech kosin í stjórn í stað hennar.
Stjórnina skipa nú Guðlaug M Jakobsdóttir forseti, Bertrand Lauth, Eyjólfur Sigurðsson, Jóhanna Björk Guðjónsdóttir ritari, Séverine Pech gjaldkeri, Sara Regal, og Sigrún Ingibjörg Gísladóttir.