Leiðsögn á frönsku hjá Serge Comte um sýninguna Beirút, Beyrut, Beyrouth, Beyrout.
- Laugardaginn 16. mars kl. 14 í Listasafni Íslands
- Aðgangseyrir á safnið gildir.
Viðburðurinn er haldinn í samvinnu við Alliance Française í Reykjavík í tilefni af hátíð franskrar tungu 2019.
BEIRÚT, BEYRUT, BEYROUTH, BEYROUT
Á undanförnum árum hefur listalífið í Beirút fangað athygli umheimsins. Skýringuna er ekki aðeins að finna í einskærum hæfileikum, heldur einnig í myndlistarsenu sem sameinar ólíkar kynslóðir, skapar samhug, er full eldmóðs, örlát og er að sönnu alþjóðleg. Hún virðist – a.m.k séð utan frá – bjóða alla velkomna til þátttöku.
Sýningin Beirút, Beyrut, Beyrouth, Beyrout dregur fram og rýnir í sögu, samfélag og stjórnmál í flóknu þjóðfélagi. Heiti sýningarinnar vísar til þess menningarlega fjölbreytileika sem Líbanon og Austurlönd nær búa yfir en þau eiga sér langa sögu sem fjöltyngt fjölmenningarsvæði. Beirút hefur mátt þola borgarastyrjaldir á 20. öldinni þar sem áþreifanleg eyðilegging hafði mikil áhrif og gætir þeirra enn. Þrátt fyrir það hefur Beirút endurnýjað sig sem menningarborg. Sárin eru þó enn til staðar, sögur sem hafa farið leynt ásamt minningum sem hafa glatast eða eiga á hættu að týnast. Pólitískar væringar og átök nágrannaríkja hafa haft áhrif á mótun og andrúmsloft borgarinnar, rétt eins og sköpunarhæfileikar, frásagnir og draumar íbúanna auðga hana.
Á sýningunni má sjá verk eftirtalinna alþjóðlegra listamanna: Mounira Al Solh, Monira Al Qadiri, Ziad Antar, Ali Cherri, Ahmad Ghossein, Joana Hadjithomas og Khalil Joreige, Lamia Joreige, Mazen Kerbaj, Stéphanie Saadé, Lucien Samaha, Helle Siljeholm, Suha Traboulsi, Raed Yassin og Akram Zaatari.
Sýningarstjórar eru Marianne Hultman, Ýrr Jónasdóttir og Birta Guðjónsdóttir.
Sýningin var áður sýnd í Oslo Kunstforening, Noregi og í Ystads konstmuseum, Svíþjóð.